JaNei <$BlogRSDUrl$>

laugardagur, desember 03, 2005

Hvers á maður að gjalda?
Úti er allt á kafi í snjó, stillt og fallegt veður og Hlíðarfjallið kallar...
En inni erum við. Að læra. Próf í vefrænum sjúkdómum bíður; gigt, taugasjúkdómar, hjartasjúkdómar, lungnasjúkdaómar, orsakir, einkenni og aukaverkanir. Rosa stuð hér á bæ. Jogginbuxur, flíspeysa, nammi og mandarínur eiga hug minn allan en púðrið og maskarinn fá að vera í fríi!

ooo, hvað ég væri samt til í að vera úti að leika mér í snjónum, baka smákökur, skreyta og verzla jólagjafir,, en það verður að bíða í tíu daga!!

Veitið mér styrk!

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Akureyris
Jæja, þá er búið að útskrifa stúlkuna af Landakoti og hún mætt í herbergið sitt norðan heiða. Það er svosum ágætt, en auðvitað saknar hún vissra aðila og fínu íbúðarinnar! Lokamatið á Landakoti fór fram síðasta föstudag og þar sat mín undir yfirheyrslum kennara Háskólans í tvær klukkustundir og lagði mat sjálfan mig, Landakot og leiðbeinanda minn. Þetta gekk bara nokkuð vel og stóðst ég vettvangsnámið sem er bara gott mál!

Stúlkan var svo heppin að komast í laufabrauðsgerð í síðustu viku. Amman er á svæðinu og því var ákveðið að henda í "ömmulaufabrauð" og skera út fáeinar kökur!! Nú get ég borðað helling af laufabrauði þessi jólin þar sem ég átti stóran hluta í að búa þær til!! Reyndar fóru allar kökurnar í foreldrahúsin, en ég stel örugglega nokkrum eftir prófin!!

Helgin var róleg og notuð til þess að safna orku fyrir jólaprófin! Á laugardag var skroppið í rómantíska ferð í Bláa Lónið og var það rosa huggó! Á leið heim var svo stoppað í PIZZUNNI í Garðabænum og þar fékk ég þessa frábæru pizzu- mæli með þessum stað!

Og nú er stúlkan semsagt komin norður. Og þegar hún var að tékka sig inn í flug í gær komst hún að því að hún hefur orðið fyrir miklum íslensku áhrifum frá föður sínum og öðrum fjölskyldumeðlimum þegar hún sagðist eiga bókaðan miða "til Akureyris".... Stúlkan var nú fljót að leiðrétta þetta og held ég að stúlkan í innrituninni hafi ekkert tekið eftir þessari skemmtilegu málfræðivillu!

Hér fyrir norðan er semsagt snjór, mikið jólaskraut og allt voða jólalegt. Og til að toppa jólastemminguna hittumst við stelpurnar í bekknum í kvöld og héldum Litlu Jólin. Boðið var upp á hangikjet, uppstúf, grænar, malt og appelsín, laufabrauð og annað er tilheyrir jólunum. Svo var skipst á pökkum og fékk stúlkan þetta girnilega jóladagatal og þessa líka sætu fílahúfu!! Takk fyrir gott kvöld allar saman!

Svo nú er bara að fara að læra. Í dag kláraðist einn fyrirlestur, á morgun skal eitt verkefni klárast og svo þarf bara að fara að hella sér í prófalestur. Eitt próf 6. des, annað próf 9. des og það þriðja 13. des og þá kemur stúlkan heim. Svo þið getið farið að telja niður.

Bless í bili

This page is powered by Blogger. Isn't yours?